Header Paragraph

Dregið úr umhverfisáhrifum af litun gallabuxna

Image
Ólafur Ögmundarson

Ólafur Ögmundarson, dósent við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, er meðal höfunda nýrrar vísindagreinar sem birtist í hinu virta tímariti Nature Communications. Í henni er fjallað um framleiðslu á nýjum bláum lit, indican, sem getur komið í stað hins hefðbundna indigo við litun gallabuxna með nýjum og umhverfisvænni hætti. Árlega eru framleiddir milljarðar slíkra buxna. Samstarfsfólk Ólafs í Danmörku vinnur að stofnun sprotafyrirtækis í kringum þessa nýju aðferð.

Rannsóknin var unnin undir forystu Ditte Hededam Welner, vísindamanns við Novo Nordisk Foundation Center for Biosustainability við Danska tækniháskólann (DTU) – eða DTU Biousustain. Það er þverfræðilegt rannsóknarsetur þar sem m.a. er leitað nýrra leiða til þess að nýta ensím og bakteríur af ýmsu tagi til að framleiða ýmiss konar lífefni. 

Ólafur lauk doktorsprófi í umhverfisstjórnun frá DTU og starfaði við rannsóknasetrið áður en hann hóf störf við Háskóla Íslands. Að hans sögn hefur rannsóknarverkefnið verið í þróun og vinnslu frá árinu 2019. 

Ensím og sólarljós nýtt til að lita gallabuxur

Litarefnið sem notað er í bláar gallabuxur í dag nefnist eins og áður er nefnt indigo en framleiðsla þess og litun bómullarinnar í buxunum er mjög óumhverfisvæn. Stærstur hluti þessa litarefnis er framleiddur í Kína að sögn Ólafs og þaðan fluttur til Indlands, Bangladess og Pakistan þar sem framleiðsla buxnanna og litun fer fram.

Rannsóknarhópurinn á bak við vísindagreinina í Nature Communications hefur þróað nýja og umhverfisvænni leið til litunarinnar sem byggist á að nota litarefnið indican og nota annaðhvort ensím eða sólarljós til að ná fram þeim sérstaka lit sem einkennir bláar gallabuxur. Með því að nýta indican þarf ekki að nota svokölluð afoxunarefni (e. reducing agents) við litun gallabuxnanna og ferlið krefst minni orkunotkunar, sem hvort um sig veldur umtalsvert minni umhverfisáhrifum en hefðbundin litun með indigo. „Hugmyndin er að vera með færiband sem dýfir buxunum í indican og svo halda buxurnar áfram á færibandinu þar sem þeim er annað hvort dýft í ensím til að framkalla litinn eða ljósaperur lýsa á efnið og þá kemur liturinn í ljós,“ útskýrir Ólafur.

Ólafur segir að Ditte Hededam Welner, vísindamaður við DTU og forsprakki rannsóknarinnar, og samstarfsfólk hennar vinni nú að stofnun sprotafyrirtækis sem byggist á þessari aðferð til litunar á gallabuxum. Þá hafi gallabuxnaframleiðendur á Ítalíu og Spáni þegar lýst yfir áhuga á að nýta þessa aðferð.

Til mikils er að vinna að draga úr umhverfisáhrifum af litun gallabuxna því fjórir milljarðar blárra gallabuxna eru seldir í heiminum á ári hverju. Á meðan þú, lesandi góður, ert að renna yfir þessa grein, hafa því mörg hundruð gallabuxur verið seldar í heiminum.

Ólafur undirstrikar að í rannsókninni sé bara horft til framleiðslu og notkunar litar fyrir gallabuxur, ekki framleiðslu bómullarinnar og vefnaðarins fyrir buxurnar en það ferli sé mun stærra og óumhverfisvænna en litunarferlið. 

Þróunin flókið ferli

Að sögn Ólafs hefur ferlið við rannsóknina veri flókið en það hefur m.a. falið í sér tilraunir á rannsóknarstofum, ítrun og bestun þessarar nýju framleiðsluaðferðar auk útreikninga á efnahaglsegun ávinningi af nýrri framleiðsluaðferð. „Minn hlutur í rannsókninni felst í svokallaðri lífsferilsgreiningu (e. sustainability assessment) og hún var gerð að mínu frumkvæði. Slík greining byggist á að því að meta umhverfisáhrif af öllum þáttum og efnum sem þarf til í þessu tilviki til að framleiða litarefnin og mismunandi aðferðum við litun gallabuxnanna. Dæmi um umhverfisáhrif sem metin voru eru losun gróðurhúsalofttegunda, eituráhrif á manneskjur, vatnsnotkun, ofaugðun í vatni og súrnun sjávar,“ útskýrir Ólafur.

Ólafur segist nota sömu aðferðir í matvæla- og næringarfræðirannsóknum sínum við Háskóla Íslands en hann kennir jafnframt námskeið við Háskóla Íslands þar sem lífsferilsgreiningaraðferðafræðin er í brennidepli. 

Ólafur segir rannsóknina í Nature Communications einnig forvitnilega að því leyti að í henni séu allar hliðar sjálfbærni teknar inn, þar með talin möguleg samfélagsleg áhrif. „Þessi nýja aðferð til að lita gallabuxur mun mögulega ekki eiga sér stað í löndum eins og Indlandi og Bangladess og hvað mun þá verða um þá einstaklinga sem sinna þeirri vinnu nú? Ef til vill myndu þeir missa vinnuna en þeir verða hins vegar ekki fyrir jafnmikilli eitrun,“ bendir Ólafur á.

Þetta segir hann að sé eitt það forvitnilega við sjálfbærnimálin sem flest samfélög séu nú að fást við m.a. í gegnum Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. „Við ætlum að bjarga heiminum, þess vegna erum við að þessu og það er verið að leggja mikla vinnu í það, en hvaða afleiðingar mun það hafa? Þetta er mikilvægt að skoða í heild og það reyndum við m.a. að gera í þessari rannsókn.“

Fjallað hefur verið um rannóknina í dönskum fjölmiðlum, þar á meðal Politiken og Videnskap.

Image
Ólafur Ögmundarson

„Minn hlutur í rannsókninni felst í svokallaðri lífsferilsgreiningu (e. sustainability assessment) og hún var gerð að mínu frumkvæði. Slík greining byggist á að því að meta umhverfisáhrif af öllum þáttum og efnum sem þarf til í þessu tilviki til að framleiða litarefnin og mismunandi aðferðum við litun gallabuxnanna,“ segir Ólafur Ögmundarson. MYND/Kristinn Ingvarsson